Ferill 1169. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2211  —  1169. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þórunni Sveinbjarnardóttur um fjölda ófrjósemisaðgerða.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu margar ófrjósemisaðgerðir voru framkvæmdar á árunum 2013–2022? Svar óskast sundurliðað eftir ári, kyni, aldri og því hvort um fatlaðan einstakling var að ræða.

    Rafræn, ópersónugreinanleg skrá um ófrjósemisaðgerðir var haldin hjá embætti landlæknis frá 1998–2018. Tölur til ársins 2018 eru birtar á vef embættisins. 1 Það er ekki breyta í vistunargrunni embættis landlæknis hvort einstaklingur er fatlaður eða ekki og því ekki hægt að svara þeirri spurningu.
    Embætti landlæknis hefur ekki upplýsingar um fjölda ófrjósemisaðgerða eftir árið 2018. Fyrir gildistöku laga um ófrjósemisaðgerðir, nr. 35/2019, byggðust gögn landlæknis um ófrjósemisaðgerðir á skráðum upplýsingum á þar til gerðum umsóknareyðublöðum sem embætti landlæknis fékk send frá heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðisstofnunum sem framkvæmdu slíkar aðgerðir. Eftir gildistöku hinna nýju laga var útgáfu umsóknareyðublaðanna um ófrjósemisaðgerðir hætt enda markmið laganna m.a. að tryggja einstaklingum sjálfsforræði til að taka ákvörðun um ófrjósemisaðgerð. Þá er í hinum nýju lögum ekki kveðið á um að landlæknir skuli halda sérstaka skrá um ófrjósemisaðgerðir eins og áður var. Í stað þess að halda sérstaka ópersónugreinanlega skrá um ófrjósemisaðgerðir var ákveðið að byggja upplýsingar um þessa tegund heilbrigðisþjónustu á skráðum sjúkdómsgreiningum og aðgerðarkóðum úr sjúkraskrárkerfum sem berast í heilbrigðisskrár sem embætti landlæknis heldur, sbr. 8. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.
    Flestar ófrjósemisaðgerðir eru gerðar á stofum sjálfstætt starfandi lækna og eiga skráningar um slíkar aðgerðir því að mestu að vera í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðilækna, sbr. 8. tölul. 2. mgr. framangreinds ákvæðis. Vegna ýmissa álitamála varðandi heilbrigðisskrárnar óskaði embætti landlæknis eftir afstöðu Persónuverndar árið 2020 um það hvort upplýsingasöfnun í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru í lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679. Í áliti og niðurstöðu Persónuverndar, máli nr. 2020010064, 2 kemur fram að þörf sé á skýrari ákvæðum í settum lögum um heilbrigðisskrár.
    Innan heilbrigðisráðuneytis er unnið að endurskoðun á ákvæðum laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, um heilbrigðisskrár landlæknis, m.a. til að taka af allan vafa um heimildir til gagnaöflunar, og stefnt er á að leggja fram frumvarp um þær breytingar á 154. löggjafarþingi 2023–2024.
1     island.is/sjukrahus-og-starfsstodvar-heilbrigdisstarfsfolks-tolur
2     www.personuvernd.is/urlausnir/alit-2